24 May 2007

Kóramót Gróukóranna 2007 !

Kóramótið 2007 var haldið í Ráðhúsinu í Reykjavík á laugardaginn var.

Raddir Reykjavíkur - kór starfsmanna Reykjavíkurborgar hóf leikinn og var að syngja opinberlega eiginlega í fyrsta sinn. Kórinn stóð sig frábærlega vel. Júlíus Vífill Ingvarsson söng eitt einsöngslag með kórnum.


Brokkkórinn - kór hestamanna á Reykjavíkursvæðinu söng nokkur lög og það er sko kraftur í þeim, enda orðinn stór og öflugur hópur.


Krakkakór Grafarvogskirkju og Barnakór Landakotsskóla sungu saman nokkur lög og "slóu í gegn" eins og maðurinn sagði :)


Kyrjukórinn - kvennakór úr Þorlákshöfn. Þrátt fyrir að vera ekki fjölmennur kór sungu þær alveg prýðilega.


Gestakór var Sönghópur Ingveldar Ýrar og hún sjálf söng einsöng.
Þegar allir hóparnir voru búnir að koma sér fyrir í lokin, taldist mér vera um það bil 115 manns á sviðinu. Og það var slatti af fólki að hlusta líka. Hljóðfæraleikarar voru Hjörtur Ingvi á píanó, Guðmundur Óskar á rafbassa og Magnús á slagverk.

Þetta er alltaf jafngaman fyrir kórfólkið mitt að hafa svona "hitting" á vorin og þessvegna er þessi uppákoma komin til að vera í vetrarstarfi mínu með skemmtilegu söngelsku fólki. Vonandi fjölgar bara frekar en fækkar í glæsihópnum mínum.

14 May 2007

Vortónleikar !

Í gær voru vortónleikar allra kóra Grafarvogskirkju.

Kirkjukórinn söng undir stjórn Hilmars Arnar, því Hörður er í veikindaleyfi. Ég spilaði með í einu lagi, en alls sungu þau 4 lög.

Krakkakórinn (minn!) söng nokkur lög:

Hine ma tov
Þakklæti
Siyahamba (tvíröddun í B kafla)
Valdi kallinn (með mí-fa-so og appelsínu-milliröddum og kóreografíu)
Ég syng fyrir mömmu (í tilefni mæðradagsins fóru söngvaranir út í sal og gáfu mömmum sínum lítil pappírsblóm)
Bláu augun þín
Kisutangó (með kóreografíu)

Barna-og undlingakórinn, undir stjórn Svövu Ingólfsdóttur frumflutti hér á landi, söngleikinn Går jorden under? eftir John Høybye, en Sigurður Ingólfsson gerði snilldar þýðingu á honum. Flutningurinn gekk rosalega vel, nokkrir einsöngvarar og rapparar úr kórnum, kóreografía og hljómsveitarundirleikur.

Vildi óska að ég hefði tekið nokkrar myndir - en maður hefur víst bara tvær hendur og þær voru mjög uppteknar á þessum tónleikum. Ég spilaði sjálf með mínum kór og svo spilaði ég píanópartinn með hljómsveitinni í söngleiknum.

Í tilefni af Evróvisjon-helgi sungu allir kórarnir saman tvö gömul Júróvisjon lög: Ein bitchen frieden sem heitir Ákall á íslensku og svo hið ísraelska Halleluya einnig með íslenskum texta.

Syngið alltaf sem best :)