13 February 2010

ACDA Eastern Division Conference

Ráðstefnan hófst á miðvikudag. Fyrstu tónleikarnir á miðvikudagskvöld voru með hóp sem kallast "Off the Beat". Stúlkurnar voru 6 og piltarnir 5 í hópnum. Þau syngja allskonar lög sem útsett eru fyrir hópinn a capella. Söngurinn var flottur hjá hópnum, en sem einsöngvarar eru þau ekki nægilega góð að mínu mati.

Á fimmtudag byrjaði húllumhæið kl 9.15 - en þá er svo margt á dagskrá að erfitt er að átta sig á því hvað kemur manni best að hlusta á. Og svoleiðis líður allur dagurinn .... maður hendist á milli staða til að reyna að ná sem flestu - en stendur svo uppi í dagslok að maður sér eftir að hafa ekki getað sótt allt !!!! Og hér er lítið um að hlutirnir séu endurteknir - eins og þó hefur verið á sumum þeirra "national" ráðstefnum sem ég hef sótt.

Og talandi um það, þá ráðlegg ég fólki að sækja frekar ACDA þau árin sem þær eru haldnar. Á næsta ári verður slík ráðstefna í Chicago í byrjun mars.

Í dag, föstudag, hitti ég Helen Kemp, sem er að verða 92 ára gömul. Það var yndislegt að hitta hana og hún rifjaði upp ýmislegt frá heimsókn sinni til Íslands fyrir margt löngu. Mundi t.d. vel eftir Auði Bjarnadóttur, ballerínu, sem tók okkur í yogatíma utandyra í Skálholti sælla minninga.

Sue Ellen Page og dóttir hennar Amanda eru hérna líka og hefur verið mjög gaman að vera með þeim. Við Sue Ellen borðuðum hádegismat saman í gær og spjölluðum heilmikið.

Hérna eru ekki eins margir frábærir kórar eins og stundum á "national" ráðstefnunum - og ég hef reyndar ekki heyrt neinn kór sem endilega hefur "staðið uppúr" .... tja - nema einn blandaður kór sem var með "Smávinina" á efnisskránni. Þau sungu lagið reyndar ekki og þegar ég óskaði eftir því við kórstjórann, sagði hann: Ég vildi að ég hefði vitað af þér fyrr - þú hefðir getað hjálpað okkur með framburðinn!!!

Á morgun er síðasti dagur ráðstefnunnar og ég reyni svo að pósta meira og ýtarlegar þegar ég kem heim .... á mánudag. Er með upptökur af nokkrum atriðum (þó ekki tónleikum, því þær upptökur eru seldar) og ef einhver vill, þá get ég sent þær sem mp3 í tölvupósti. Svo er ýmislegt sem við kórstjórar ættum að fara að leiða hugann að. Ekki síst eitt sem Helen Kemp lagði áherslu á í sínu máli í dag: Það að stofna samtök eins og Choristers Guild skipti sköpum í starfi barnakóra við kirkjur í Bandaríkjunum .... mótaði stefnu og heldur utan um starfið og endurmenntun kórstjóranna !

Okkur vantar manneskju í stöðuna sem Margrét Bóasdóttir sinnti svo yndislega fallega þau ár sem hún var í starfi. Eða öllu heldur: Okkur vantar stöðugildi innan kirkjunnar !!!!!

Nóg í þetta sinn.
Söngkveðja,
Gróa.

No comments: